Lífið er blátt á mismunandi hátt

Markmið Blás apríls er að auka vitund og þekkingu almennings á einhverfu og að safna fé sem rennur óskert til styrktar málefnum sem hafa bein áhrif á börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra.Stjórn

Stjórn félagsins skipa:

Regína Björk Jónsdóttir, formaður

Arthúr Ólafsson

Brynja Sævarsdóttir

Guðný Maja Riba

Hekla Guðmundsdóttir

Særún Lea Guðmundsdóttir

Þorbjörg SæmundsdóttirStyrktarmálefnin

Í apríl ár hvert stendur félagið fyrir fjáröflun til að safna fyrir þeim verkefnum sem félagið ræðst í. Hér að neðan má sjá þau málefni sem hafa verið styrkt undanfarin ár.

2018 – Fræðsluefni um einhverfu

Árið 2018 kom út önnur fræðslumynd um einhverfu, hugsað fyrir nemendur á öllum stigum grunnskóla. Að þessu sinni var söguhetjan hún María, sem segir frá sinni upplifun af einhverfu. Fræðslumyndin og kynningarefni í tengslum við hana var unnið í samstarfi við PIPAR/TBWA.

2017 – Fræðsluefni og námskeið

Félagið heldur nú reglulega námskeið fyrir foreldra og aðstandendur barna sem greinast með einhverfu. Námskeiðin hafa gefið góða raun og eru því orðinn fastur liður í starfi félagsins.

Teiknimyndin um Dag vakti mikla lukku og hefur verið notuð til að kynna einkenni einhverfunnar fyrir börnum um allt land, auk þess Dagur hjálpar einhverfum börnum að skilja það sem þau eru sjálf að kljást við. Því var ákveðið að halda áfram á þessari braut og mun ný teiknimynd líta dagsins ljós á bláa deginum 2018.

2016 – Fræðsluefni um einhverfu

Styrktarfé ársins 2016 var varið í framleiðslu á fræðsluefni um einhverfu, hugsað fyrir nemendur á yngsta stigi grunnskóla sem og alla þá foreldra sem vilja geta útskýrt einhverfu fyrir yngri kynslóðinni á þann hátt sem þau helst skilja. Helsta sköpunarverk fræðsluefnisins er Dagur, 10 ára tölvuteiknaður drengur með einhverfu. Fræðsluefnið og auglýsingaherferðin sem henni fylgir var unnin í samstarfi við PIPAR/TBWA.

2015 – Námskeið fyrir foreldra og aðstandendur

Hátt í 500 foreldrar og aðrir aðstandendur einhverfra barna mættu á nokkur námskeið þar sem fjórir sérfræðingar, hver á sínu sviði, héldu erindi um börn og einhverfu. Námskeiðin, sem haldin voru í Reykjavík og Akureyri, gáfu foreldrum og aðstandendum einnig tækifæri til að hitta aðra í sömu sporum og skiptast á ráðum og dáðum.

2014 – Sérkennslugögn til grunnskóla

Fjárfest var í sérkennslugögnum- og búnaði fyrir yfir 4 milljónir króna og þau gefin grunnskólum um land allt. Um var að ræða sérkennslugögn, kúlusessur og heyrnahlífar fyrir börn með einhverfu á yngsta stigi grunnskóla.