Lífið er blátt á mismunandi hátt

Markmið Blár Apríl er að auka vitund og þekkingu almennings á einhverfu og að safna fé sem rennur óskert til styrktar málefnum sem hafa bein áhrif á börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra.

Styrktarmálefnin

Í apríl ár hvert stendur félagið fyrir fjáröflun þar sem allt það fé sem safnast rennur í eitt tiltekið málefni sem ákveðið er með fyrirvara. Hér að neðan má sjá þau málefni sem hafa verið styrkt undanfarin ár.

Í ár ætlum við að safna fyrir áframhaldandi fræðslustarfi um einhverfu, með áherslu á framleiðslu efnis og kynninga fyrir skólabörn, foreldra, kennara og aðra starfsmenn skólastofnana í samvinnu við sveitarfélög.

2016 – Fræðsluefni um einhverfu

Styrktarfé síðasta árs var öllu varið í framleiðslu á fræðsluefni um einhverfu, hugsað fyrir nemendur á yngsta stigi grunnskóla sem og alla þá foreldra sem vilja geta útskýrt einhverfu fyrir yngri kynslóðinni á þann hátt sem þau helst skilja. Helsta sköpunarverk fræðsluefnisins er Dagur, 10 ára tölvuteiknaður drengur með einhverfu. Fræðsluefnið og auglýsingaherferðin sem henni fylgir var unnin í samstarfi við PIPAR/TBWA.

2015 – Námskeið fyrir foreldra og aðstandendur

Hátt í 500 foreldrar og aðrir aðstandendur einhverfra barna mættu á nokkur námskeið þar sem fjórir sérfræðingar, hver á sínu sviði, héldu erindi um börn og einhverfu. Námskeiðin, sem haldin voru í Reykjavík og Akureyri, gáfu foreldrum og aðstandendum einnig tækifæri til að hitta aðra í sömu sporum og skiptast á ráðum og dáðum.

2014 – Sérkennslugögn til grunnskóla

Fjárfest var í sérkennslugögnum- og búnaði fyrir yfir 4 milljónir króna og þau gefin grunnskólum um land allt. Um var að ræða sérkennslugögn, kúlusessur og heyrnahlífar fyrir börn með einhverfu á yngsta stigi grunnskóla.